Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir mennta- og menningarmálaráðuneytisins

Synjun námsstyrkjanefndar um greiðslu námsstyrks

Ár 2011, miðvikudagur 18. maí, er kveðinn upp í mennta- og menningarmálaráðuneytinu svofelldur

ÚRSKURÐUR:

 

I.

Kröfur aðila.

Mennta- og menningamálaráðuneytinu barst þann 17. nóvember sl., bréf frá málsskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna  þar sem framsent var erindi A f.h. sonar síns B (hér eftir nefndur kærandi). Kærð er sú ákvörðun námsstyrkjanefndar (hér eftir nefnd kærði), dags. 1. desember sl., um að synja umsókn hans um greiðslu námsstyrks fyrir haustönnina 2010 skv. lögum um námsstyrki nr. 79/2003 og reglugerð um námsstyrki nr. 692/2003, með áorðnum breytingum. Með hliðsjón af gögnum málsins er krafa kæranda skilin þannig að þess sé krafist að ákvörðun kærða verði felld úr gildi og honum verði úrskurðaður námsstyrkur fyrir haustönnina 2010.

Af hálfu kærða er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði staðfest, enda sé hún í samræmi við lög og reglur.

 

II.

Málsatvik.

Kærandinn, sem stundar nám við [framhaldsskólann] X, sótti um námsstyrk skv. lögum um námsstyrki og reglugerð um námsstyrki fyrir haustönnina 2010. Með bréfi kærða, dags.  1.  desember sl., var umsókninni synjað á þeim grundvelli að kærandi hafði áður fengið greiddan jöfnunarstyrk í níu annir en skv. c-lið 1. gr. reglugerðar um námsstyrki er hámarksaðstoðartími fjögur ár eða átta annir.

Með bréfi, dags. 17. nóvember sl., skaut kærandi ákvörðun kærða til mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Þó ber að athuga að kærði var ekki búinn að ákvarða í máli kæranda þegar kærandi skaut henni til ráðuneytisins. Kærði tók ákvörðun í máli kærða þann 1. desember sl. og lítur ráðuneytið svo á að kærandi sé að skjóta þeirri ákvörðun til ráðuneytisins. Samkvæmt auglýsingu nr. 177/2007 um staðfestingu forseta Íslands á reglugerð um Stjórnarráð Íslands fer mennta- og menningarmálaráðuneytið meðal annars með mál er varðar námslán og námsstyrki. Ákvörðun nefndarinnar er því réttilega kærð til mennta- og menningarmálaráðuneytisins og barst hún ráðuneytinu innan kærufrests, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 

III.

Málsmeðferð.

Stjórnsýslukæra kæranda var móttekin 17. nóvember sl. Með bréfi, dags. 22. nóvember sl., leitaði ráðuneytið umsagnar kærða um kæruna. Umsögn kærða barst ráðuneytinu 2. febrúar sl. Með bréfi ráðuneytisins, dags. 15. mars sl., voru athugasemdir kærða kynntar kæranda og honum gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum. Engar athugasemdir bárust frá kæranda innan umsagnarfrests.

 

IV.

Málsástæður og lagarök kæranda.

Í stjórnsýslukærunni kemur fram að kærandi hafi byrjað í námi í [framhaldsskólanum] Y haustið 2005 og stundað þar nám í 2 ár. Hann hafi ákveðið að skipta um skóla og námsbraut og farið í [framhaldsskólann] Z í eitt ár og lokið þar bóklegu námi í […]. Hann ákvað svo að fara í [framhaldsskólann] X til að ljúka námi til stúdentsprófs. Hann byrjaði þar haustið 2008 en varð svo frá að hverfa á vorönn sökum veikinda. Hann hóf aftur nám haustið 2009. Fram kemur í kæru að hann hyggst ljúka námi vorið 2011. Einnig kemur fram í kæru að móðir kæranda búi […] [í sveitarfélaginu] C og þess vegna hafi hann þurft að leigja sér íbúð í [sveitarfélaginu] D til að geta sótt [framhaldsskólann] X.

Kærandi telur að honum hefði átt að vera tilkynnt um reglugerðarbreytingu þar sem hámarkstíma fyrir greiðslu á jöfnunarstyrk var breytt úr tíu önnum í átta annir. Hefði hann þá getað tekið ákvörðun um hvort og hvernig hann gæti fjárhagslega haldið áfram í skólanum.

V.

Málsástæður og lagarök kærða.

Í rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun, sbr. bréf kærða, dags. 2. febrúar sl., segir að skv. c-lið 1. gr. reglugerðar um námsstyrki er hámarksaðstoðartími fjögur ár eða átta annir. Þar sem kærandi hafi nú þegar fengið greiddan jöfnunarstyrk í níu annir sem og að skv. reglugerðinni er einungis heimilt að veita styrk í átta annir hafi hin kærði ekki geta fallist á að veita kæranda jöfnunarstyrk á skólaárinu 2010-2011. Kærði telur ákvörðun sína í máli þessu vera í samræmi við lög og reglur og fer fram á það að ráðuneytið staðfesti hana.

VI.

Rökstuðningur niðurstöðu.

 

Um skilyrði laga um námsstyrki, nr. 79/2003.

Í lögum um námsstyrki er mælt fyrir um skilyrði styrkveitinga. Samkvæmt 2. gr. laganna njóta þeir nemendur sem stunda reglubundið framhaldsskólanám hér á landi og verða að dveljast fjarri fjölskyldu sinni vegna námsins réttar til námsstyrkja. Í 8. gr. laganna segir að mennta- og menningarmálaráðuneytið setji reglugerð er mæli nánar fyrir um hvernig lögin skuli framkvæmd.

Reglugerð um námsstyrki nr. 692/2003

Mennta- og menningarmálaráðherra hefur mælt nánar fyrir um framkvæmd laganna. Við móttöku framangreindrar stjórnsýslukæru var í gildi reglugerð nr. 692/2003, með síðari breytingum, sem kærði hefur byggt á við úrlausn máls þessa. Samkvæmt 1. gr. reglugerðarinnar eiga nemendur á framhaldsskólastigi sem fullnægja tilgreindum skilyrðum rétt til námsstyrkja til jöfnunar á fjárhagslegum aðstöðumun vegna búsetu svo sem nánar er kveðið á um í reglugerðinni.

Í 2. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar kemur fram að hámarksaðstoðartími er fjögur ár eða 8 annir.

Niðurstaða.

Umsókn kæranda um jöfnunarstyrk fyrir haustönnina 2010 var synjað þann 12. nóvember sl. Í lögum um námsstyrki nr. 79/2003 eru skilyrði fyrir því að nemandi geti notið réttar til námstyrkja. Í 8. gr. laganna kemur fram að mennta- og menningarmálaráðherra setji með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laganna. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. þeirra reglugerðar kemur fram að hámarksaðstoðartími er fjögur ár eða 8 annir.

Í máli kæranda reynir fyrst og fremst á það hvort rétt hafi verið að beita ákvæðum reglugerðar nr. 692/2003, með síðari breytingum um að hámarksaðstoðartími væri fjögur ár eða 8 annir með tilliti til gildistöku reglugerðarinnar en hún tók gildi þann 6. ágúst 2010 enda uppfyllir kærandi önnur skilyrði reglugerðarinnar.

Telja verður að þar sem reglugerðarbreytingin, um að breyta hámarksaðstoðartíma úr 5 árum eða 10 annir í fjögur ár eða 8 annir, tók gildi 6. ágúst 2010 sem var áður en skólaganga hófst hjá kæranda haustönnina 2010, en haustönnin 2010 byrjaði 26. ágúst, má líta svo á að hún gildi um umsókn hans fyrir haustönnina 2010. Reglugerðarbreytingin var birt í Stjórnartíðindum 6. ágúst 2010 og þar um leið aðgengileg kæranda áður en hann hóf nám á haustönn 2010. Hefði kærandi þá getað gert ráðstafanir vegna náms síns þar sem haustönnin 2010 var ekki byrjuð.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið telur að afgreiðsla námsstyrkjanefndar hafi verið í samræmi við 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 692/2003, með síðari breytingum, sbr. 8. gr. laga um námsstyrki, og að óhjákvæmilegt sé að byggja niðurstöðu á þeirri reglugerð sem var í gildi þegar kærandi sótti um jöfnunarstyrk fyrir haustönnina 2010.

Með vísan til þess sem að framan greinir er hin kærða ákvörðun staðfest eins og nánar greinir í úrskurðarorðum.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Hin kærða ákvörðun um synjun um styrk til jöfnunar á námskostnaði til B, dags. 1. desember 2010, vegna haustannar 2010 er staðfest.   


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum